Trjárækt

Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Eftir það voru gróðursettar árlega þúsundir plantna í hólmanum á sérstökum skógræktardegi fram til ársins 1970. Megin verkefni starfsmanna var að græða upp árhólmann þar sem gróður var illa farinn af búfjárbeit en hóminn var girtur 1950. Frá árinu 1972 og í rúma tvo áratugi annaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur gródursetningu í Ellidaárdal en nú seinustu árin er mikið unnið að grisjun elstu lundanna og að gera þá aðgengilegri til útivistar. Aðal trjátegundirnar í dalnum eru birki, reynir, alaskaösp, lerki, viðja, sitkagreni, rauðgreni, stafafura, skógarfura og bergfura. Trjágróðurinn hefur þrifist með ágætum en þó ekki áfallalaust. Kringum 1960 herjaði skæður furulúsafaraldur á skógarfuru svo flest trén drápust, á seinasta áratug hafa þær skógarfurur sem mesta mótstöðu höfðu verið að ná sér og eru nú nokkrar ljómandi fallegar skógarfurur í hólmanum. Í slæmu vorhreti 1963 skemmdist mikið af alaskaösp og sitkagreni. Nú um aldamótin eru hæstu trén í árhólmanum um 13 metra há. Í nordurhlíð Ellidaársdals, í Sveinbjarnalundi, voru gróðursettar sitkagrenisplöntur 1937. Þau tré eru núna um 20 m há og eru talin hæstu grenitré á Íslandi. Mikið er um sjálfgrónar plöntur af birki, reyni, stafafuru og ýmsum víðitegundum í dalnum.

Flóra Elliðaárdals

Áður en land byggðist var Elliðaárdalurinn vaxinn birkiskógi en víðiflákar í votlendi og á árbökkum. Við landám breyttist gróðurfar til muna, plöntutegundir sem ekki þoldu beit létu undan síga en beitarþolnar tegundir eins og grös, starir og lyngtegundir urðu ríkjandi. Skógar eyddust og uppblástur hófst á hæðum og ásum. Samfara vaxandi þéttbýlismyndum jókst beitarálag og um miðja 20. öldina var allur gróður í dalnum í slæmu ástandi. Helstu gróðurlendin voru slitrótt mólendi umgirt melum og stórgrýttum holtum.

Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað. Nú sjá lífverur í jarðvegi um að breyta sinu og laufi í gróðurmold og eftir því sem frjósemi eykst verður gróður vöxtulegri, rof og ógróin svæði gróa og fjöldi blómplantna sem áður áttu í vök að verjast ná að dafna.

Heiðargróður, svo sem mólendi og mosaþemba, var áður algengasta gróðurlendið en nú er skógur að vaxa upp á stærstum hluta þess. Allnokkurt svæði með samfelldum heiðagróðri er þó enn í efsta hluta dalsins sunnan ár og í Blásteinshólma. Gróskumikil blómlendi með geithvönn, maríustakk, mjaðjurt og fjalldalafífil eru meðfram bökkum vesturkvíslarinnar neðanverðrar. Votlendisgróður er ekki algengur í Ellidaárdal, mest mun þó vera um hann ofan Árbæjarstíflu og þar eru líka einstök gróðursamfélög sem hafa verið á kafi í vatni stóran hluta árs allt frá því að stíflan var gerð.

Áhrifa frá byggð í dalnum og efnistöku gætir víða. Malarnámur hafa verið jafnaðar og sáð í þær grasfræi en nú eru ýmiss þurrlendisgródursamfélög að þróast þar. Breiður af lúpínu getur að líta í röskuðu landi einkum þar sem áður voru rofblettir eða efnistaka og hóffífill hefur lagt undir sig raskað land einkum þar sem rakt er og jarðvegur leirkenndur. Á yfirgefnum lóðum vaxa ýmsar tegundir garðagróðurs sem sumar hverjar eru farnar að dreifast út. Ber þar mest á skógarkerfli og svo sigurskúf sem reyndar er innlend tegund. Eru sigurskúfsbreiðurnar mjög áberandi bæði þegar hann skartar rauðbleikum blómklösum og svo þegar hann tekur á sig purpurarauða haustliti eftir fyrstu haustfrost. Framangreindar ílendar tegundirnar og sigurskúfurinn teljast til þess sem kallast frumbýlingar sem þýdir að þær eru fljótar að leggja undir sig raskað land, hvort heldur er af manna völdum eða náttúruhamförum, geta þær þá verið aðgangsharðar en víkja smám saman þegar varanlegri gróðursamfélög, sem eru hæfari til ad nýta sér náttúrlegar forsendur umhverfisins, hafa náð að þróast.